Nýherji er eitt öflugasta upplýsingatæknifélag landsins en það hóf starfsemi sína þann 2. apríl 1992 með samruna IBM á Íslandi hf. og Skrifstofuvéla-Sund hf. Stofnendur voru IBM í Danmörku, Draupnissjóðurinn, Vogun hf., Óli Kr. Sigurðsson og nokkrir stjórnendur IBM á Íslandi.

IBM á Íslandi stofnað árið 1967

Þrátt fyrir ungan aldur á fyrirtækið sér djúpar rætur í íslensku viðskiptalífi. Forsaga Skrifstofuvéla-Sund hf. hófst t.a.m. árið 1899. Saga IBM á Íslandi hf. hófst með stofnun Skrifstofuvéla hf. árið 1946 en stofnandinn var Ottó A. Michelsen. Árið 1949 urðu Skrifstofuvélar hf. einkaumboðsaðili fyrir IBM hér á landi. IBM á Íslandi hf. var síðan stofnað sem sérstakt fyrirtæki í eigu IBM árið 1967. Skrifstofuvélar lögðu til helming af sínu starfsfólki og var Ottó A. Michelsen forstjóri fyrirtækisins allt til ársins 1982, þegar Gunnar M. Hansson tók við.

Nýherji hf. verður að veruleika

Árið 1987 keypti Gísli J. Johnsen-Skrifstofubúnaður sf. rekstur og lager Skrifstofuvéla hf. og var starfsemin sameinuð undir nafninu Skrifstofuvélar-Gísli J. Johnsen hf. Þar með var fyrirtækið orðið það langstærsta á sínu sviði hér á landi, með umboð fyrir mörg helstu fyrirtæki heims á sviði tölvu- og skrifstofubúnaðar. Árið 1990 komst fyrirtækið í eigu Óla Kr. Sigurðssonar og kallaðist Skrifstofuvélar-Sund hf. þar til það var sameinað IBM á Íslandi. við stofnun Nýherja hf.

Gunnar M. Hansson var forstjóri IBM á Íslandi frá 1982 og einnig forstjóri Nýherja hf. frá stofnun þess 2. apríl 1992 og þar til í maí 1996. Frosti Sigurjónsson tók við starfi forstjóra af Gunnari og gegndi því starfi næstu fimm árin. Þann 1. apríl 2001 tók Þórður Sverrisson við starfi forstjóra Nýherja hf. Í september 2013 lét Þórður Sverrisson forstjóri félagsins af störfum eftir 12 ár. Finnur Oddsson, aðstoðarforstjóri tók við starfi Þórðar.

Viðskipti með hlutabréf félagsins hófust á Opna tilboðsmarkaðinum 30. nóvember 1995 og á Verðbréfaþingi Íslands (nú OMX Nordic Exchange Iceland) 30. október 1997.

Nýtt húsnæði félagsins í Borgartúni 37 var tekið í notkun á árinu 2000 og hefur síðan hýst meginhluta af starfsemi félagsins.

Dótturfélög á Íslandi

Á árinu 2000 var dótturfélagið Klak ehf. stofnað til að nýta þá reynslu og þekkingu sem Nýherji hf. býr yfir í þágu sprotafyrirtækja á sviði upplýsingatækni. Þá var einnig stofnað dótturfyrirtækið SimDex ehf. til að halda utan um áframhaldandi þróun og sölu samskiptalausna móðurfélagsins. Starfsemi SimDex var hætt árið 2009. Á árinu 2013 sameinuðust frumkvöðlasetrin Klak og Innovit undir nafninu Klak-Innovit. Eig­end­ur fé­lags­ins eru Nýherji, Há­skóli Íslands, Há­skól­inn í Reykja­vík, Ný­sköp­un­ar­sjóður at­vinnu­lífs­ins og Sam­tök at­vinnu­lífs­ins auk sex ein­stak­linga. Árið 2016 var nafni Klak-Innovit breytt í Icelandic Startups. 

Á árinu 2003 var allt hlutafé í Camson hf. keypt, en fyrirtækið var sérhæft í stafrænum búnaði fyrir útvarps-, sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðinn. Camson hf. var sameinað móðurfélaginu á árinu 2004. Þá var í árslok 2003 samið við IBM Nordic AB um kaup á ráðgjafarfyrirtækinu IBM Consulting Services á Íslandi. Nafni félagsins var breytt í ParX ehf. og veitir það innlendum og erlendum aðilum viðskiptaráðgjöf. PriceWaterhouseCoopers keypti rekstur ParX í lok ársins 2009.

Á árinu 2006 var allt hlutafé í Tölvusmiðjunni ehf. á Austurlandi keypt og var það liður í því að styrkja starfsemi Nýherja hf. í þeim landsfjórðungi. Starfsemin var aðallega fólgin í rekstrarþjónustu, hýsingu og notendaþjónustu á sviði upplýsingatækni en félagið hefur nú verið sameinað móðurfélaginu.

Í mars 2007 var gerður samningur um kaup á öllu hlutafé í Link ehf., sem er umboðs- og dreifingaraðili fyrir Sony, Panasonic og fleiri þekkt vörumerki. Í september 2007 gerði Linkur ehf. samning um kaup á rekstri Sony Center í Kringlunni. Í júní 2007 opnaði Nýherji verslunina Sense í Hlíðarsmára í Kópavogi þar sem seldar eru mynd- og hljóðlausnir fyrir heimili og fyrirtæki. Árið 2009 var starfsemi Links og Sense sameinað undir merkjum síðarnefnda félagsins. Starfsemi Sense og Nýherja var sameinað undir merkjum Nýherja árið 2011.

Í október 2007 var samið um kaup á ráðandi eignarhlut í upplýsingafyrirtækinu TM Software hf. og dótturfélögum þess; EMR heilbrigðislausnum ehf., Vigor ehf. og Skyggnir ehf. Með kaupunum styrkti Nýherji hf. stöðu sína hér á landi umtalsvert sem alhliða upplýsingatæknifyrirtæki. Árið 2011 var starfsemi Skyggnis og Nýherja sameinað undir merkjum síðarnefnda félagsins. Þá var starfsemi EMR heilbrigðislausna og TM Software sameinað undir merkjum TM Software og starfsemi Vigor og Applicon undir merkjum Applicon.

Árið 2014 var rekstur TEMPO skilinn frá rekstri TM Software ehf. og stofnað um það sér fyrirtæki, Tempo ehf.

Félög erlendis

Í tengslum við aukin erlend verkefni á sviði SAP-hugbúnaðar var dótturfélagið Nýherji A/S í Danmörku stofnað árið 2004.

Í október 2005 var undirritaður samningur um kaup á danska SAP-ráðgjafarfyrirtækinu Applicon A/S í Kaupmannahöfn. Með því var stigið stórt skref í þá átt að styrkja sóknina sem hafin var á erlenda markaði með lausnum tengdum SAP. Í byrjun árs 2014 lokið við sölu á dótturfélögum Nýherja í Danmörku, Applicon A/S og Applicon Solutions A/S. Í dag er Applicon með starfsemi á Íslandi og í Svíþjóð. Applicon í Danmörku var síðar selt úr rekstri Nýherja. 

Þá var í maí á sama ári keypt allt hlutafé í danska félaginu DanSupport A/S, en félagið er þjónustufyrirtæki sérhæft í uppsetningu á tölvu-, samskipta- og símkerfum fyrir meðalstór fyrirtæki, með starfsemi í Óðinsvéum, í Kolding og í Kaupmannahöfn. Nýherji seldi félagið til Jansson Kommunikation A/S í janúar 2014.

Í lok janúar 2008 var gengið frá kaupum dótturfélags Nýherja, Applicon A/B á sænska félaginu Marquardt & Partners AB, sem sérhæfði sig í í innleiðingu hugbúnaðar, ráðgjöf og þjónustu við fjármálafyrirtæki.

Nánar um dótturfélög Nýherja.