Lenovo slær Dell við og nær öðru sætinu

01.11.2011

Kínverski tölvurisinn Lenovo hefur skotist fram úr Dell í sölu á tölvubúnaði og er orðin annar stærsti tölvuframleiðandi heimsins, að sögn markaðsgreininga-fyrirtækisins Data Corportation (IDC). Lenovo hefur gengið flest í haginn á þessu ári og slegið met í sölu á tölvubúnaði, en því var spáð fyrr á þessu ári þegar félagið náði þriðja sæti af Acer að ekki yrði langt að líða að það næði öðru sæti.

Lenovo hefur vaxið um 36% í sölu á búnaði frá þriðja ársfjórðungi 2010 fram til í lok þriðja ársfjórðungs 2011 en það er langmesti vöxtur 5 stærstu tölvuframleiðenda heimsins, að sögn engaget.com.  

Markaðshlutdeild Lenovo er í kringum 13,7% á heimsvísu og segir Yuanqing Yang, forstjóri félagsins, að uppgangur þess sé einstakur; að því hafi tekist slá út tvo keppinauta og ná öðru sæti á heimslistanum í sölu á tölvubúnaði á aðeins tveimur ársfjórðungum.