Lenovo með minnstu borðtölvu í heimi

01.12.2011

Lenovo hefur sent frá sér minnstu borðtölvu í heimi. Tölvan, sem heitir Q180, er vissulega pínulítil en að geisladrifinu undanskildu er tölvan lítið stærri en DVD hulstur, eða 155 x 192 x 22mm að stærð, segir á vef DV.

"Þú ert þó líklega ekki að fara að skemmta þér í Battlefield 3 í tölvu sem þessari en hún er þó nokkuð öflug. Hún er búin 2.13GHz Atom örgjörva með allt að 4GB af vinnsluminni. Tölvuna geturðu svo fengið með nokkrum mismunandi stærðum af hörðum diskum. Síðast en ekki síst er hún svo búin HDMI og 7.1 hljóðkerfi," segir á vef DV.

Þá segir að tölvan komi á markað í desember næstkomandi og verði aðeins seld í gegnum netið til að byrja með. Verðmiðinn sé 349 dalir, eða jafnvirði 41.600 króna.

Nýherji er umboðsaðili Lenovo á Íslandi.