Morgunblaðið rýnir Canon EOS 600D

06.12.2011

Þegar ekki er nóg að hafa myndavél í símanum eða vasanum er rétt að feta sig upp í almennilegar vélar, frekar en að taka stóra stökkið strax. Canon EOS 600D er ekki atvinnuvél, en hún er ekki bara vél fyrir amatöra, segir Árni Matthíasson blaðamaður á Morgunblaðinu í grein sinni um gripinn í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 4. desember.

"Hægt að stilla allan fjandann"

Hann segir meðal annars að helstu framfarir í vélinni séu varðandi vídeótökur. Þá segir hann: "Munur á vélum atvinnumanna og amatöra felst oftar en ekki í því hve mikla stjórn maður hefur á vélinni - hvað vélin ræður miklu með lýsingu, skerpu og tilheyrandi. Í þessari vél er hægt að stilla allan fjandann og hægt að velja ýmis snið, til að mynda andlitsmynd, landslagsmynd, einlita o.s.frv., en líka hægt að stilla á sjálfvirkni sem mér sýndist vinna mjög vel."

Ennfremur segir að allar Canon-linsur passi við vélina, þar með taldar linsur með hristivörn, svonefndar IS-linsur. "Ólíkt flestum framleiðendum öðrum er Canon með hristivörnina í linsunum, en ekki í myndavélarhúsinu, sem fyrirtækið segir betri högun, en ég treysti mér ekki til að skera úr um það."